Hælisleitendur

 

Meistaranámskeið um flóttafólk og hælisleitendur

 

Þverfaglegt meistaranámskeið um flóttafólk og hælisleitendur – haldið á haustönn 2014.  

Námskeiðið var samvinnuverkefni milli Félagsvísindasviðs HÍ (MARK, félagsráðgjafardeildar,  lagadeildar, námsbrautar í mannfræði (félags- og mannvísindadeild HÍ), Endurmenntunar HÍ  og Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur.   Námskeiðið var annars vegar ætlað meistaranemum við HÍ og hins vegar nemendum utan skólans, svo sem starfsfólki opinberra stofnana og félagasamtaka, sem tækju þátt í námskeiðinu í gegnum Endurmenntun HÍ. Að undirbúningi námskeiðsins stóðu Brynhildur G. Flóvenz, dósent við lagadeild, Edda Ólafsdóttir, sérfræðingur innflytjendamála á Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur, Guðbjörg Ottósdóttir, aðjúnkt í félagsráðgjöf, Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði og Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði.

Markmið námskeiðsins var að auka þekkingu og skilning fagfólks og háskólanema á málefnum flóttafólks og hælisleitenda frá sjónarhóli félagsráðgjafar, lögfræði og mannfræði. Auk þess að nemendur öðlist grunnþekkingu og skilning á:

  • helstu fræðikenningum, megináherslum og hugtökum er varða flóttafólk og hælisleitendur almennt í heiminum í dag með sérstakri áherslu á stöðu mála á Íslandi,
  • réttarstöðu flóttafólks skv. íslenskum rétti og alþjóðarétti sem og tengslum milli mannréttinda og verndar flóttafólks,
  • samspili þeirra fjölmörgu þátta sem áhrif hafa á reynslu og líf flóttafólks og hælisleitenda í nýju landi,
  • mismunandi stöðu mismunandi  hópa flóttafólks svo sem kvótaflóttafólks, hælisleitenda, barna án fylgdarmanns, ríkisfanglausra einstaklinga, þolenda mansals  o.fl.,
  • ólíkri stöðu karla, kvenna og barna,
  • stefnu sveitarfélaga og ríkis í málefnum flóttafólks og hælisleitenda og hafi yfirsýn yfir hana.

Kennt var í þremur lotum, samtals 30 kennslustundir.  Námsmat byggðist á hópverkefni (20%), heimildarritgerð hvers og eins (30%) og skriflegu lokaprófi (50%). 48 nemendur voru skráðir í námskeiðið, 34 meistaranemar við HÍ og 14 nemar í gegnum Endurmenntun HÍ. 

 

 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is