Hér á ég heima!

Violeta  Tolo Torres er ein fjölmargra filippseyskra innflytjenda sem sest hafa að á Íslandi. Frá barnsaldri hafði hana dreymt um að giftast, eignast falleg börn og heimili og búa einhversstaðar erlendis. Hún var ákveðin í að láta drauminn rætast og flutti frá Filippeyjum til Íslands þegar hún var 22 ára og hefur aldrei litið til baka.

Violeta er fædd og uppalin í Cebu á Filippseyjum. Hún ólst upp hjá einstæðri móður ásamt tveimur systrum og stórri  móðurfjölskyldu. Það var ekki skemmtilegt að vera föðurlaus en hún átti marga að sem hún kallaði pabba m.a móðurbræður og venslamenn. Fjölskyldan er stærsti og mikilvægasti hlutinn í lífi hennar.

Violeta hefur ferðast mikið til annarra landa víðsvegar um heiminn. Í hvert skipti sem hún ferðast ber þó hæst tilhlökkunina um að  koma aftur heim til Íslands.  Ísland er hennar heimili enda hefur hún verið hér meira en helming ævinnar.

Violeta er gift og á tvær dætur og tvö barnabörn. Hún er viðskiptafræðingur að mennt frá University of San Carlos í Cebu og fyrir tveimur árum útskrifaðist hún sem MSc. í Alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst og starfar nú sem verkefnisstjóri á fjármálasviði Háskóla Íslands.

Fyrirlestur Violetu Tolo Torres er hluti af fyrirlestrarröð MARK vorið 2016, sem ber yfirskriftina: Ísland heiman og heim – útflytjendur -  innflytjendur. Fyrirlestrarröðin er tvíþætt. Annars vegar fjalla Íslendingar um reynslu sína af búsetu í öðrum löndum og/eða sterkum tengslum við aðra menningu og önnur lönd. Hins vegar segja innflytjendur á Íslandi frá reynslu sinni af búsetu hér og þeim áskorunum sem þeir hafa þurft að takast á við í nýju landi.

Staður og stund: Þjóðminjasafn, 15. apríl kl. 12-13

Allir hjartanlega velkomnir

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is