16. mars 2016
Hvar er heima og hvaða áhrif hefur reynsla okkar á uppvaxtarárunum á rannsóknir okkar? Þessi spuring hefur leitað á Ólöfu Garðarsdóttur sem verður með fyrirlestur í boði MARK þann 18. mars n.k. Ólöf er prófessor í félagssögu við Menntavísindasviði HÍ og hefur sinnt rannsóknum á fólksfjölda- og fjölskyldusögu undanfarna áratugi. Ólöf ólst upp í Reykjavík til þrettán ára aldurs en árið 1972 fluttist hún með foreldrum sinum og þremur systrum til Lúxemborgar. Þar bjó fjölskyldan í litlu þorpi í vínræktarhéraði í Móseldalnum. Að yfirgefa vinahópinn heima á Fróni, læra þrjú ný tungumál og kynnast menningu sem var íslenskum unglingi framandi hefur trúlega haft meiri áhrif á persónuleika hennar og rannsóknaráherlsur en hún hefur gert sér grein fyrir. Ólöf fluttist aftur til Íslands á fullorðinsárum, eignaðist tvö börn, tók kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands og BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Síðar lá leiðin til Svíþjóðar með börnin tvö þaðan sem hún lauk doktorsprófi í sagnfræði. Í erindinu veltir Ólöf því fyrir sér hvaða áhrif reynslan af búsetu erlendis hefur haft á þau viðfangsefni sem hafa fangað hug hennar í rannsóknum.
Fyrirlestur Ólafar er hluti af fyrirlestrarröð MARK vorið 2016, sem ber yfirskriftina:Ísland heiman og heim – útflytjendur - innflytjendur. Fyrirlestrarröðin er tvíþætt. Annars vegar fjalla Íslendingar um reynslu sína af búsetu í öðrum löndum og/eða sterkum tengslum við aðra menningu og önnur lönd. Hins vegar segja innflytjendur á Íslandi frá reynslu sinni af búsetu hér og þeim áskorunum sem þeir hafa þurft að takast á við í nýju landi.
Staður og stund: Þjóðminjasafn, 18. mars kl. 12-13
Allir hjartanlega velkomnir