Íslendingur, innflytjandi, eða hvort tveggja?

Íslendingur, innflytjandi, eða hvort tveggja? er titill næsta fyrirlestrar á vegum MARK sem verður 19. febrúar n.k.

Hún er dóttir þýsks farandverkafólks sem kom til Íslands á vegum Búnaðarfélags Íslands árið 1949 er fædd á Íslandi en ólst að hluta upp hjá ættingjum í Þýskalandi. Sólveig Hulsdunk Georgsdóttir heitir hún sem ætlar í fyrirlestri sínum að rekja reynslu sína af því að alast upp í tveimur löndum, mótast sem fullorðinn einstaklingur í Svíþjóð og það menningaráfall sem það var að flytja aftur heim til Íslands, sem um margt var eins og að flytja til útlanda. Hér reyndist margt öðruvísi en hún hafði vanist í Svíþjóð og stundum ríkti skilningsleysi og neikvæð viðhorf til Svía. Seinna bjó Sólveig um árabil í Belgíu og einnig í Noregi. Hún komst í samband við nýja ættingja á miðjum aldri og hefur það, ásamt þeim breytingum sem orðið hafa á íslensku samfélagi, vakið upp spurningar og vangaveltur með henni um hvort hún er Íslendingur eða innflytjandi og hvort það skipti yfirleitt einhverju máli.

Sólveig Hulsdunk Georgsdóttir er MA í mannfræði. Hefur starfað lengi í minja- og safnageiranum, m.a. við stjórnun og stefnumótun, en einnig við rannsóknir, þ. á m. hjá MIRRA, Miðstöð Innflytjendarannsókna, ReykjavíkurAkademíunni. Sólveig starfar í dag sem þýðandi hjá Þýðingamiðstöð Utanríkisráðuneytisins.

Staður og stund: Þjóðminjasafn, föstudagur 19. febrúar kl. 12-13  

Fyrirlestur Sólveigar er í fyrirlestrarröð MARK Ísland heiman og heim – útflytjendur – innflytjendur

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is