Öðruvísi á litinn – ytra útlit, innri hugsun

10. mars 2016

Hvað segir útlit, klæðaburður, litarháttur og  fas um einstaklinginn? Hvernig lesa aðrir í útlit okkar og hvaða áhrif hefur það á hvernig þeir flokka okkur og geta sér til um viðhorf okkar og tilfinningar? Hvaða þættir móta okkur raunverulega sem einstaklinga og hvað segir litarháttur um það hverig við erum raunverulega „á litinn“?  Svava Bernharðsdóttir víóluleikari og heimshornaflakkari flytur erindi 11.mars kl. 12 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins, þar sem hún segir  frá reynslu sinni og svarar þessum áleitnu spurningum.

Svava Bernharðsdóttir ólst upp í höfuðborginni, í fiskiþorpi og í sveitinni. Tólf ára gömul  flutti hún til Afríku (Eþíópíu)  þar sem hún gekk í norskan, amerískan og franskan skóla, auk skóla lífsins með alvarlegum veikindum, byltingu, borgarastríði og hungursneið.  Seinna lá leiðin til náms og starfa í Bandaríkjunum, Hollandi, Sviss, Þýskalandi og að lokum til Slóveníu, sem þá var nýorðið sjálfstætt land á miklum breytingartímum.  Inn á milli flutti hún ,,heim“ til Íslands og upplifði ,,litarhátt“ sinn oft ólíkan öðrum.  Svava er víóluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Fyrirlestur Svövu er hluti af fyrirlestrarröð MARK vorið 2016, sem ber yfirskriftina

Ísland heiman og heim – útflytjendur -  innflytjendur. Fyrirlestrarröðin er tvíþætt. Annars vegar fjalla Íslendingar um reynslu sína af búsetu í öðrum löndum og/eða sterkum tengslum við aðra menningu og önnur lönd. Hins vegar segja innflytjendur á Íslandi frá reynslu sinni af búsetu hér og þeim áskorunum sem þeir hafa þurft að takast á við í nýju landi.

Staður og stund: Þjóðminjasafn,11. mars,  kl. 12-13

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is