Þangað og til baka aftur - reynsla innflytjanda á Íslandi

Þangað og til baka aftur, er yfirskrift næsta fyrirlesturs á vegum MARK. Að vera innflytjandi, að takast á við nýjan menningarheim og nýtt tungumál er áskorun, sem felur í sér vissa erfiðleika en mest af öllu tækifæri. Allt of oft er litið á innflytjendur sem einsleitan hóp fólks, sem flúði erfiðleika og hafði varla annað val en að koma til Íslands í staðinn fyrir að horfa á innflytjendur sem fjársjóð af mannauði, sem fólk sem þorir og hefur margt fram að færa. Þetta er mat fyrirlesarans Sabine Leskopf, sem fædd er í Þýskalandi en hefur auk þess búið í Skotlandi, Rússlandi og á Íslandi frá árinu 2000 ásamt manni sínum og börnum. Hún fékk svo tækifæri til að flytja – ásamt fjölskyldu sinni - tímabundið til Berlínar eftir 12 ára búsetu á Íslandi. Í erindinu ræðir Sabine um þennan „endurflutning“ heim í land sem var ekki lengur „heima“ og svo til baka til Íslands. Að hennar mati var þetta stórkostlegt tækifæri til að endurskoða sjálfa sig sem innflytjanda og eigin sýn á nýja, gamla og aftur nýja heimalandið. Eftir flutninginn aftur til Íslands ákvað Sabine að taka þátt í stjórnmálum og takast þar aftur á við nýjan heim, jafnvel nýtt tungumál.

Sabine Leskopf er varaborgarfulltrúi og þýðandi. Hún hefur lengi unnið að málefnum innflytjenda, var m.a. formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna og vann í Alþjóðahúsi.

Fyrirlestur Sabine Leskopf er hluti af fyrirlestrarröð MARK vorið 2016, sem ber yfirskriftina: Ísland heiman og heim – útflytjendur -  innflytjendur. Fyrirlestrarröðin er tvíþætt. Annars vegar fjalla Íslendingar um reynslu sína af búsetu í öðrum löndum og/eða sterkum tengslum við aðra menningu og önnur lönd. Hins vegar segja innflytjendur á Íslandi frá reynslu sinni af búsetu hér og þeim áskorunum sem þeir hafa þurft að takast á við í nýju landi.

 

Staður og stund: Þjóðminjasafn, 1. apríl kl. 12-13

 

Allir hjartanlega velkomnir

sjá líka: https://www.facebook.com/events/1112644405446659/

 

 

 

 

 

 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is